Um Linux og Opinn hugbúnað  ::  Að byrja notkun Linux  :: Linux á íslensku

Linux á íslensku

Lítil umfjöllun um notkun Linux á íslensku og forritaþýðingar almennt. Til stendur að finna fljótlega annan stað til að hýsa þetta efni, upplýsingar um það yrðu settar á þessa síðu.

Af hverju íslenskt tölvukerfi og forrit?

Hvers vegna ætti maður að vera að nota íslenskt viðmót á stýrikerfið sitt, eða að vera að stauta í gegnum skipanir í forriti á íslensku þegar öll þessi tölvutengdu hugtök eru svo mikið tamari á ensku? Þetta er allt hvorteðer skrifað á ensku og ef maður notar enskuna þá skilja allir alla, ekki satt?

Enska er ekki (eina) málið; mikill minnihluti jarðarbúa hefur ensku að móðurmáli, skilningur sá sem lagður er í hugtök sem upphaflega voru á ensku (og þar áður á latínu eða forn-norrænu) er alltaf að breikka. Núna eru gerðar um sérstakar orðabækur með suðausturasískri ensku, suðurafrískri, indverskri og til er sérstök mállýska sem kallast alþjóðaenska - "International English", að ógleymdum meginstofnunum en_us og en_gb.

“If you talk to a man in a language he understands, that goes to his
head. If you talk to him in his language, that goes to his heart”
- Nelson Mandela -
[Heimild: http://europa.eu/languages/en/document/59]

Sífellt minni hluti forrita og viðmóta er skrifaður af fólki sem hefur ensku að móðurmáli. Ekki er hægt að ganga út frá því sem vísu að enska sú sem sýnd er í forritsviðmóti sé "rétt" eða standist lágmarkskröfur um málfræði.

Það er aumingjaskapur að nota ekki íslensku í samskiptum við aðra íslendinga, þegar til eru hugtök yfir hlutina. Aumingjaskapurinn liggur í því að maður er ekki að sinna þessu verkfæri sem manni var gefið - verkfæri sem er sérstakt, vandmeðfarið og viðkvæmt (vegna fámennis). Þetta er eins og að skilja rándýru hleðsluborvélina eftir í margar vikur úti í garði um hávetur. Sunnanlands.Aðalvalmynd KDE 3.5

Flest ríki heimsins leggja mikla áherslu á þýðingar og aðlögun tölvuumhverfa og taka jafnt beinan sem óbeinan þátt í forritaþýðingum. Sum þeirra styðja vel við þýðingar á Linux verkefnum, samnorræna Skolelinux (Edbuntu) verkefnið er dæmi um það. Talið er að u.þ.b. 1% af fjárhagsáætlun Evrópusambandsins sé til þýðinga, mest til skjalaþýðinga en einnig til forritaþýðinga þar með talið í Linux.

Aðlögun forrita að notkun ákveðinna menningarhópa er skipt í tvennt; staðfærslu <i18n> og þýðingar <l10n>. Styttingarnar i “18n” og “l10n” standa fyrir “internationalization” og “localization”, fyrsti og síðasti stafurinn ásamt fjölda stafa sem vantar á milli; sniðugt nördatrix...

Staðfærslan snýst um að gera tölvuumhverfið hæft til að taka við þýðingum, en einnig hluti eins og form á einingum (metrakerfi, krónur o.þh.), lyklaborð, í hvaða átt texti er skrifaður ofl. ofl. Þýðingarnar snúast svo um að koma viðmóti, undirliggjandi forritum hjálpartextum og fleiru yfir á viðkomandi tungumál. Stundum er talað um þetta tvennt saman sem “globalization”.

Hver er staða íslenskra þýðinga opins hugbúnaðar?

Seint getur maður búist við að nokkurntíma verði allt þýtt á íslensku í öllum þeim forritum sem eru í almennri notkun. Undirliggjandi kerfishugbúnaður er ekki framarlega á óskalistanum hvað þýðingar varðar. Og seint verða þýðingarnar gerðar í eitt skipti fyrir öll; íslenskan þróast og þýðingar aðlagast. Þetta er viðvarandi aðgerð.

Spurningin er; á að láta sérfræðinga um að þýða tölvuumhverfið okkar, eða á kannski að leyfa hinum almenna notanda að hafa sitt að segja ?

Valmynd í Konqueror KDE 3.5

Í byrjun ársins 2009 var staða þýðinga á Linux stýrikerfum eftirfarandi:

  •     GNOME ~15% (viðmót og hjálparskjöl)
  •     KDE3 ~66% og KDE4 ~53% (viðmót, hjálparskjöl óþýdd)
  •     Ubuntu (GNOME) ~20% (viðmót og hjálparskjöl)
  •     GNU/Linux ~óverulegt

Íslensk þýðing á notendaviðmótum er mun lengra komin en á mörgum undirliggjandi forritum, hjálparskjöl eru lítið sem ekkert þýdd. Eftir sem áður eru flestar Linux dreifingarnar vel nothæfar á íslensku þar sem megináherslan hefur verið á að þýða algengustu forritin.

Hvernig fara þýðingar fram?

Aðalvalmynd í GNOME 2.24Linux er þýtt í nokkrum hópum, ýmist tengdum skjáborðsumhverfum eða dreifingum. Virkastar hafa íslensku þýðingarnar verið fyrir Ubuntu og KDE. Margir þýðendur reyna að þýða ákveðinn hóp forrita á sínu sérsviði, oft innan margra þýðingarhópa.

Lang algengast er að þýðingaskrár séu á svokölluðu PO-sniði og búnar til með svokölluðum GNU/gettext tólum. Það eru textaskrár uppsettar eftir ákveðnum reglum svo að forrit geti lesið þær rétt. Hægt er að þýða stakar línur í venjulegum textaritli og senda síðan til einhvers sem hefur skrifaðgang inn á miðlægt svæði þaðan sem þýðingunum er dreift. Þetta er hinsvegar nokkuð takmarkandi, afkastameiri þýðingar eru gerðar með öllu þróaðri áhöldum.

Öflugast er að hafa aðgang að miðlægum PO-skráagrunni í gegnum SVN (Subversion) eða CVS (eldra). Þetta eru svokölluð útgáfustýringarkerfi (svipað og við nútíma skjalavörslu); með þeim eru heil eða hlutar þýðingasafna (td. allar íslenskar þýðingar GNOME) vistuð inn á harða diskinn hjá viðkomandi þýðanda, og uppfærð eftir þörfum þannig að miðlæga útgáfan verði sú sama og á harða disknum. Hægt er að stýra hvaða útgáfa vistast inn á miðlarann, hægt er að afturkalla breytingar og kalla fram eldri breytingar. Hugmyndin byggir á því að margir geti verið að vinna með sama skjalið.

Sumir slíkir PO-skráagrunnar eru með vefviðmóti sem gera vinnuna um margt einfaldari. Dæmi um slíkt er Rosetta hugbúnaðurinn á Launchpad.net, þarna er hægt að þýða Ubuntu og mörg sjálfstæð forrit án nokkurs undirbúnings annars en að skrá sig. Þetta er sniðug leið til að prófa að þýða, eða til að leiðrétta stakar villur.

Kbabel þýðingarviðmót fyrir PO skrárÞegar unnið er með PO-skrár eru yfirleytt notuð forrit sem hafa verið aðlöguð slíkri vinnslu eða verið sérskrifuð til slíks. Sem dæmi má taka PoEdit eða Emacs (með sérstökum viðbótum), aftur á móti er Kbabel hið eina sem býr yfir öflugu “þýðingarminni” sem kemur með uppástungur og samanburð við eldri þýðingar. Eins eru til ennþá öflugri forrit fyrir atvinnumenn í þýðingum, þau eru hinsvegar ekki ókeypis.

Til að forrit geti síðan notað þýðingarnar er PO-skránum breytt yfir í tvíundarkerfisskrár, svokallaðar MO-skrár með hjálp sérstakra forrita. Flestir láta sér nægja að bíða frekar eftir næstu uppfærslu á tungumálastuðningi í gegnum pakkastjórann sinn.

Ef einhver hefur áhuga á að taka þátt í þýðingum Linux á íslensku ætti alltaf að byrja á að hafa samband við hópstjóra íslensku þýðingarinnar, eða senda skeyti inn á póstlista hópsins. Þá fást nánari upplýsingar um hvernig best er að bera sig að við þýðingavinnuna.

Helstu íslensku þýðingarhóparnir:

GNOME : búið að þýða ~15% ef miðað er við bæði viðmót og hjálparskjöl.

KDE : búið að þýða ~66% í KDE3 og ~53% í KDE4. Hér er miðað við viðmótin, hjálparskjöl eru  óþýdd.

Ubuntu : er að miklu leyti byggt á GNOME, Kubuntu útgáfan styðst við KDE. Þar er búið að þýða ~20% (viðmót og hjálparskjöl), að mestu í gegnum vefviðmót en einnig hægt er að hala niður/hlaða inn PO-skrám.

GNU/Linux : þarna eru ýmis tól og undirliggjandi forrit sem notuð eru til stuðnings í skjáborðsumhverfum eða ein og sér á skipanalínu. Óverulegur fjöldi þessara forrita hefur verið þýddur enda ekki oft sem venjulegur notandi kemst í tæri við þau, helst þá ef um villuskilaboð er að ræða. Nokkur forritanna eru samt þess eðlis að þau þyrftu að vera til á íslensku, má þar til dæmis nefna libexif og gphoto sem sjá um samskipti við stafrænar myndavéĺar og gutenprint sem heldur utan um prentararekla.

Nokkur samskipti eru um íslenskun Linux á póstlista RGLUG, stundum hefur verið blásið til svokallaðra þýðingarhátíða (translationfest); þá hittist fólk og þýðir hin ýmsu forrit, getur fengið aðstoð og ber saman bækurnar. Óhjákvæmilega fylgir þessu nokkur flatbökuneysla og annað tilheyrandi.

Stök forrit sem búið er að þýða á íslensku:

Firefox netvafrinn hefur verið þýddur á íslensku fyrir flest stýrikerfi, hins vegar hefur enginn ennþá lagt í systurforritið Thunderbird sem sér um tölvupóst.

Stellarium stjörnuhvolfið útgáfa 0.9 er til á íslensku auk viðbótarlandslags frá Íslandi.

Eitt sinn var búið að þýða Skype samskiptaforritið en ekki er vitað hver staðan er nú til dags.

Gaman væri að fá ábendingar um fleiri slíkar þýðingar.

Orðalistar og hugtök:

Þýðingarlisti RGLUG: wiki-síður með helstu hugtökum sem notuð eru við þýðingar á Linux viðmótum, ekki uppfært nema endrum og eins.

Orðabanki Íslenskrar málstöðvar: safn fagorðalista á nokkrum tungumálum

Tölvuorðabókin: aðgangur í gegnum vef Skýrslutæknifélags Íslands

Open-tran opni þýðingargagnagrunnurinn: hægt er að setja upp bókamerki í flesta vafra sem gerir kleift að þýða samstundis valin orð á vefsíðum, nánar í hjálparsíðu Open-tran.

Margar fleiri hjálparsíður eru til á netinu.

Efnisyfirlit

Um Linux og Opinn hugbúnað  ::  Að byrja notkun Linux  :: Linux á íslensku

::  © Sveinn í Felli ::