OPINN HUGBÚNAÐUR  ::  MYNDVINNSLA  ::  ÞÝÐINGAR  ::  STELLARIUM  ::  ÝMISLEGT
 ::  LFB  -->  Dálitlar upplýsingar um Linux - á einföldu máli  :: 

::  © Sveinn í Felli ::

Linux og opinn hugbúnaður

(grein eftir Smára McCarthy 2008 - lítillega stytt og breytt)

Frjáls hugbúnaður hefur verið skilgreindur sem hugbúnaður þar sem leyfilegt er að nota hugbúnaðinn, skoða grunnkóðann og breyta honum eftir þörfum, jafnframt því að dreifa honum að vild. Heimilt er að taka gjald fyrir sínar eigin breytingar, en takmarkanir eru á annarri gjaldtöku varðandi slíkan hugbúnað. Hugmyndafræði frjáls og opins hugbúnaðar hefur stundum verið talin í andstöðu við hið ríkjandi markaðsmódel hugbúnaðariðnaðarins, en þá ber að taka til greina að það módel er komið til ára sinna og rekur uppruna sinn til áranna áður en internetið náði fótfestu.

Internetið á tilvist sína að þakka opnum og frjálsum stöðlum. Það hafa verið gerðar tilraunir til að loka það inni í einkaleyfaskóginum, því hefur að mestu verið afstýrt. Internetið er meira að segja að töluverðu leyti keyrandi á opnum hugbúnaði: Linux stýrikerfi með Apache vefþjónum, MySQL gagnagrunnum, PHP skriftumáli, Joomla vefstýrikerfum, ofl. ofl.

Í dag eru vörur þær sem framleiddar eru undir formerkjum stafræns frelsis ótrúlega mörg: Linux stýrikerfið, OpenOffice skrifstofupakkinn, Firefox vafrinn, Apache vefþjónninn, MySQL gagnagrunnurinn og svo framvegis. En frjálsi heimurinn framleiðir ekki bara hugbúnað, heldur líka menningarverðmæti svo sem Wikipedia alfræðiritið, sem er stærsta og ítarlegasta alfræðirit heims. Kvikmyndir, tónlist, og margt fleira er gefið út undir sambærilegum skilmálum við frjálsan hugbúnað, en undantekningarlaust er þar um að ræða vörur sem kosta ekki neitt.

Forsætisráðuneytið gaf fyrr á árinu út stefnu varðandi frjálsan hugbúnað, sem mætti hafa fengið mun meiri athygli. Það er tími til komið að einhver skoði þessa stefnu rækilega, og jafnvel íhugi hvort að hún sé ekki allt of mild í merkingu sinni. Punktarnir í stefnunni eru fimm:

  1. Gæta skal þess að gefa frjálsum hugbúnaði sömu tækifæri og séreignarhugbúnaði þegar tekin er ákvörðun um kaup á nýjum búnaði og ávallt skal leitast við að gera sem hagstæðust kaup.

  2. Leitast verði við að velja hugbúnað sem byggist á opnum stöðlum, hvort sem um staðlaðan búnað sé að ræða eða sérsmíðaðan. Opnir staðlar eru yfirleitt ráðandi í frjálsum hugbúnaði.

  3. Stefnt verði að því að opinberir aðilar verði ekki of háðir einstökum hugbúnaðarframleiðendum og þjónustuaðilum. Notkun frjáls hugbúnaðar er liður í því.

  4. Stefnt skal að því að hugbúnaður sem smíðaður er og fjármagnaður af opinberum aðilum, m.a. í rannsóknar- og þróunarverkefnum, verði endurnýtanlegur. Liður í því er að hugbúnaðurinn sé frjáls. Í upphafi slíkra verkefna skal gera áætlun um endurnýtingu hugbúnaðarins.

  5. Stuðlað verði að því að nemendur í menntastofnunum landsins fái tækifæri til að kynnast og nota frjálsan hugbúnað til jafns við séreignarhugbúnað.

Þessi stefna er frábært skref í rétta átt, en þegar stefnan var samin var engin leið að vita að kostnaður vegna hugbúnaðarleyfa átti eftir að margfaldast sökum breytinga á efnahagsástandinu. Jafnvel með góðlátlegu framtaki Microsoft þá hafa hugbúnaðarútgjöld fyrirtækja og ríkisstofnanna aukist til muna vegna fjármálaóreiðunnar, til dæmis vegna gagnagrunnskerfa, fjársýslukerfa, vefþjóna, póstþjóna, margmiðlunarhugbúnaðar og fleira.

Nú á dögunum ákvað Microsoft, einn helsti hugbúnaðarframleiðandi heims, að sala á hugbúnaði til Íslands skyldi miðast við að gengið á evrunni væri 120 krónur, en þessi afsláttur er töluverður. Í ljósi þessa göfuga útspils eins ríkasta fyrirtækis heims eru framleiðendur á frjálsum hugbúnaði tilbúnir til að veita öllum íslenskum aðilum, opinberum sem einkaaðilum, fyrirtækjum sem einstaklingum, ókeypis og frjálsan aðgang að sínum vörum til eilífðarnóns, eins og hann hefur gert nú í áratugi.

Við verðum því að gera nýja og harðari kröfu. Það er klárt mál að það er ósanngjarnt að fólk greiði fyrir vöru þegar sambærilega eða betri vöru má fá frítt. Enginn sem hefur þekkingu á frjálsum og lokuðum hugbúnaði neitar því að frjáls hugbúnaður er í nær öllum tilfellum betri en séreignarhugbúnaðurinn.

Krafan er því einföld: Vilji framleiðendur séreignarhugbúnaðar halda áfram þátttöku í íslenskum efnahag verða þeir að lækka verðið á sínum vörum niður í núll, ekki bara strax, heldur til frambúðar.

Ástæðan er sú að hugbúnaður er afritaður án jaðarkostnaðar; það kostar ekkert að dreifa hugbúnaði umfram þá föstu upphæð sem kostaði að framleiða hugbúnaðinn í upphafi. Hægt er að ná fram sömu innlendu tekjum af sölu þjónustu við hugbúnað og fást við sölu hugbúnaðarins, og viðskiptalíkön fyrirtækja sem átta sig á þessum mikilvæga greinarmun eru ekki í neinni hættu. Mörg íslensk fyrirtæki hafa áttað sig á þessu, og fyrirtæki eins og CCP gætu í rauninni gert hugbúnaðinn sinn frjálsan án þess að fórna neinu. Þeirra tekjur koma ekki frá sölu hugbúnaðarins – þvert á móti gefa þeir hann frítt – heldur af sölu áskriftar að þjónustunni sem hugbúnaðurinn er; fólk kaupir sig inn í heim þann sem CCP rekur, og þar liggja verðmætin. Ef hugbúnaðurinn væri frjáls eru allar líkur á því að áhugasamir spilarar myndu leggja sitt að mörkum við að bæta hugbúnaðinn, sem yrði til bóta bæði fyrir fyrirtækið og spilaranna.

Erlendis hafa mörg fyrirtæki áttað sig á þessu líka. Sun Microsystems hefur á undanförnum árum frelsað sinn hugbúnað og gefið hann frítt, vitandi það að þeirra helstu tekjulindir eru af sölu á þjónustu annars vegar og vélbúnaði hinsvegar.

Það er mikilvægt fyrir íslensku þjóðina að fyrirtæki sem framleiða hugbúnað hætti að selja vörur sem kostar þá ekkert að afrita. Geri þeir það ekki, þá túlkast það sem árás á sjálfstæði þjóðarinnar nú á krepputímum. Þeirra vörur eru ekki af því taginu að tekið verður af þeim: þegar hægt er að afrita eitthvað óendanlega oft án þess að kostnaður hljótist af er hreinlega ósiðlegt að útiloka einhvern, hvað þá rukka leigu af því.

Fyrstu mótmælin sem framleiðendur og seljendur séreignarhugbúnaðar munu leggja fram við þessu er að rekstrarkostnaður á frjálsum hugbúnaði sé meiri en af séreignarhugbúnaði. Við þessu á ég til tvö svör.

Fyrsta svarið er að þetta er haugalygi. Í dag borgar Íslenska ríkið tugi, ef ekki hundruði milljóna króna árlega til Microsoft í leigu eða afnotagjöld af stýrikerfinu þeirra einu og sér, og ofan á það bætast margar tugir milljóna til viðbótar vegna skrifstofupakkans þeirra. Skólar og stofnanir greiða þá jafnframt fyrir sérfræðihugbúnað þó svo að yfirleitt sé til hliðstæður frjáls hugbúnaður.

Annað svarið er að mikill meirihluti af þeim peningum sem fara í að greiða fyrir reksturinn af séreignarhugbúnaði fer rakleiðis úr landi, en með frjálsan hugbúnað er hægt að halda öllu fjármagninu innan íslenska hagkerfisins og eiga afgang. Öllum tölvukerfum fylgir töluverð umsýsla, hvort sem framleiðandinn sé fyrirtæki eða sjálfboðaliðar. Með því að nota frjálsan hugbúnað geta kerfisstjórar séð um alla umsýslu án þess að neinn hluti kostnaðarins sé greiddur til erlendra aðila.

Þetta er því tillagan: Hættum að greiða fyrir hugbúnað.

Yrði Ísland fyrsta landið til að stíga þetta skref? Þvert á móti. Brasilía fór þessa leið fyrir nokkrum árum, sem og Kína. Stór hluti stjórnsýslu Californíu er keyrður á frjálsum hugbúnaði, og fjölmörg önnur ríki og sveitarfélög hafa hætt að greiða fyrir sinn hugbúnað. Á norðurlöndum hefur Skolelinux verkefnið unnið til fjölmargra verðlauna fyrir sín jákvæðu áhrif innan menntastofnanna. Smám saman er fólk allsstaðar í heiminum að uppgötva kosti þess að nýta sér afrakstur samvinnu sjálfboðaliða um allan heim.

Í ofanálag við leyfisgjöldin hefur íslenska ríkið kostað þýðingu á Microsoft Windows, verkefni sem kostaði tugir milljóna. Ubuntu Linux dreifingin er nú 21% þýdd á íslensku, en þá er um að ræða þýðingu á öllum þeim þúsundum forrita sem fylgja kerfinu. Megnið af grunnkerfinu hefur þá verið þýtt, og þýðingarvinnan gengur mjög vel sem samvinnuverkefni fjölmargra einstaklinga.

Sömuleiðis greiðir menntamálaráðuneytið fyrir aðgang allra íslendinga að vefútgáfu Encyclopedia Britannica, en á sama tíma er frjálsa samvinnuverkefnið Wikipedia mun oftar heimsótt af íslendingum, og það kostar engan neitt að fá aðgang að því. Íslenskun Wikipedia gengur einnig rosalega vel, en í íslensku útgáfunni eru nú rúmlega 23000 greinar.

http://wiki.hi.is/index.php/Frjáls_og_opinn_hugbúnaður
.

OPINN HUGBÚNAÐUR  ::  MYNDVINNSLA  ::  ÞÝÐINGAR  ::  STELLARIUM  ::  ÝMISLEGT
 ::  LFB  -->  Dálitlar upplýsingar um Linux - á einföldu máli  :: 

::  © Sveinn í Felli ::