OPINN HUGBÚNAÐUR  ::  MYNDVINNSLA  ::  ÞÝÐINGAR  ::  STELLARIUM  ::  ÝMISLEGT
 ::  LFB  -->  Dálitlar upplýsingar um Linux - á einföldu máli  :: 

:: Sveinn í Felli ::

NETIQUETTE - BOÐORÐIN 10 Í NETSAMSKIPTUM

Hér eru nokkrar af mikilvægustu reglunum varðandi samskipti við aðra á internetinu.

1Þú skalt ekki senda spam. "Spam" eða kæfupóstur, er sending skilaboða með til margra aðila í einu, með tölvupósti eða vefviðmóti, inn á Usenet fréttahópa, blogg, póstlista eða annað slíkt. Slík skilaboð eru oft viðskiptatilboð, en geta einnig verið keðjubréf eða flökkusögur. Verðirðu oft uppvís að slíku, eru líkur á að aðgangur þinn verði takmarkaður í framtíðinni.

2Þú skalt ekki slá mikið inn í HÁSTÖFUM. Í netheimum samsvarar þetta HRÓPUM og KÖLLUM!, sem jaðrar við dónaskap þar sem upplýst fólk kemur saman. Að auki er þreytandi að lesa slíkan texta.

3Þú skalt lesa leiðbeiningarnar (FAQ) áður en þú sendir. Flestir póstlistar og Usenet fréttahópar eru með síðu eða skjal þar sem MargSpurðarSpurningar (FAQ) eru afgreiddar. Lestu FAQ-ið áður en þú sendir, spurningunni þinni gæti þegar hafa verið svarað. Þarna gætu líka verið upplýsingar um hvernig eigi að spyrja spurningar eins og þinnar.

4Þú skalt horfa áður en þú hoppar (af stað). Lestu viðkomandi fréttahóp eða póstlista um skeið áður en þú sendir fyrirspurn inn á hann, ekki síst til að fá á tilfinninguna hvaða andrúmsloft er í gangi þarna. Póstlistar og fréttahópar eru eins og hvert annað samfélag eða partí, það er yfirleytt búinn að mótast einhver andi eða mórall innan hópsins; reyndu að finna út hver hann er áður en þú ferð að láta á þér bera.

5Þú skalt ekki taka tilvitnanir úr samhengi. Flest þau forrit sem notuð eru til að senda tölvupóst eða annarra samskipta á netinu gera fólki kleift að merkja tilvitnanir í það sem áður hefur komið fram. Þetta er sniðug aðferð ef hún er notuð rétt. Ekki klippa til tilvitnanair annarra, skeyta saman óskyldum setningum eða fjarlægja orð til að ná fram þínum sjónarmiðum eða löngunum. Þú tekur aldrei orð annarra og gerir beint að þínum.

6Þú skalt ekki stunda íkveikjur (flame). Þótt íkveikjur (flaming) – það að senda örg eða ögrandi skeyti - sé algeng venja í netheimum, er best að taka ekki þátt í slíku. Stundum brjótast út heilu eldgosin (flame wars), þar sem skipst er á eitruðum pillum og rýtingar fljúga; slíkt er almenn tímaeyðsla og misnotkun á bandvídd og diskplássi annarra. Ef þú freistast til að skrifa einhvern reiðilestur, hvort sem er í opinberu eða einkaskeyti, bíddu í einn dag með að senda það. Lestu það svo aftur þegar þú ert búin(n) að kæla þig.

7Þú skalt senda skilaboð á viðeigandi staði. Þegar sent er á fréttahóp eða póstlista, gakktu úr skugga um að um réttan móttakanda sé að ræða. Til dæmis, ekki setja tilkynningu um “til sölu” inn á lista tilheyrandi “einkamál” - ef það er til hópur sem heitir “óska eftir” eða “til sölu”. Og ekki senda ræður um hvað Mac tölvur séu æðislegar inn á lista sem tileinkaður er kerfisstjórnun í Windows, útkoman verður bara eldgos (flame-war), sjaldnast neitt uppbyggilegt.

8Þú skalt ekki gaspra "ég líka". Sendu tölvupóst og greinar sem bæta einhverju bitastæðu við umræður. Það að segja "ég líka" eða eitthvað í þeim dúr – án nokkurs raunverulegs framlags – bætir eingöngu við offramboð upplýsingaleysu á netinu.

9Þú skalt yfirfara textann þinn. Áður en þú sendir skaltu fara yfir það sem þú skrifaðir, leita að stafsetningarvillum og athuga hvort málfarið sé í lagi. Sértu með uppsett leiðréttingaforrit er engin afsökun gild fyrir því að nota það ekki. Það ber vott um áhugaleysi og fljótfærni að senda frá sér texta sem er löðrandi í villum. Þetta á líka við bloggsíður.

10Þú skalt ekki belgja út undirskriftina þína. Þú getur hengt undirskrift (signature) við tölvupósta og skeyti send með vefviðmóti – nokkrar línur af texta sem gefur til kynna hver þú ert og hvernig eigi að hafa samband við þig. Stundum er undirskriftin allsherjar listaverk með ASCII kóða, stundum er hún fyndin eða merkingarþrungin. En ekki fara yfir strikið – reyndu að halda undirskrifum innan fjögurra lína.

Sjá einnig
RFC 1855 - Netiquette Guidelines (frá árinu 1995 - sígilt)
http://www.dtcc.edu/cs/rfc1855. html#2

OPINN HUGBÚNAÐUR  ::  MYNDVINNSLA  ::  ÞÝÐINGAR  ::  STELLARIUM  ::  ÝMISLEGT
 ::  LFB  -->  Dálitlar upplýsingar um Linux - á einföldu máli  :: 

::  Sveinn í Felli ::
CreativeCommons BY-NC-SA notkunarleyfi